Lýsing
Lífeðlisfræðin fjallar um lífsstörfin, um virkni líkamans, hvernig saman starfa frumur hans, vefir og líffæri. Fræðiheiti greinarinnar, fysiologia, kemur fyrst fyrir í grískum ritum um 600 f.Kr., og merkir þá nánast náttúruvísindi eða náttúruheimspeki, könnun á eðli náttúrlegra hluta, jafnt í lífvana náttúru sem í lífheiminum. Í lok miðalda táknaði hugtakið vísindin um störf heilbrigðs mannslíkama, og á 19. öld innlimaði lífeðlisfræðin loks lífsstörf allra lifandi vera, örvera og plantna jafnt sem dýra og manna.
Lífeðlisfræðin tengir líffræði við læknisfræði, lyfjafræði, landbúnaðarfræði og fleiri hagnýtar fræðigreinar. Hún er því fyrir ýmsa mikilvægur þáttur í undirbúningi að lífsstarfi. Til mun fleiri – allra þeirra sem láta sig varða ástand eigin líkama – á hún erindi sem hluti almennrar menntunar.